Mér finnst sá þurrmatur sem nú er í boði fyrir þá sem eru að ganga á fjöll ekki bragðgóður og oft skín í gegn að hann sé gerður úr ódýrum hráefnum. Því fékk ég þá hugmynd að leita leiða til að útbúa bragðgóðan þurrmat sem hægt er að taka með á fjöll," segir Einar Sveinn Westlund, framkvæmdastjóri og stofnandi Fjallamatar, nýsköpunarfyrirtækis sem býr til þurrkaðan fjallamat fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Að sögn Einars er maturinn frá Fjallamat eldaður að fullu til að bragðið líki frekar eftir heimagerðum mat en þurrmat. Hann segir að maturinn verði framleiddur í stóru eldhúsi hér á landi og viðskiptavinir geti svo sérpantað matinn, sem henti vel fyrir hópa, ferðaþjónustufyrirtæki og þá sem hafi sérþarfir í mat. Skammtastærðin sé hugsuð út frá áætlaðri líkamlegri áreynslu.

„Mín helstu áhugamál eru útivera og eldamennska. Ég er menntaður í ævintýraleiðsögumennsku frá Kanada og í náminu prófaði maður allskyns útivistaríþróttir líkt og sjókajak, klifur, fjallaskíði o.s.frv.

Meðan á þessu stóð fékk ég mikinn áhuga á að elda úti í náttúrunni og reiða fram eins góðan mat og kostur er á við slíkar aðstæður.

Eftir að ég kláraði námið byrjaði ég að leiðsegja á Laugaveginum - gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þar var ég oft með hátt í tuttugu manns í hverjum hóp og fór fljótt að leggja mig fram við að elda góðan mat fyrir gestina, enda sá ég að það gladdi þá verulega.

Það hefur reynst mörgum leiðsögumönnum erfitt í gegnum tíðina að elda á fjöllum og fjallamaturinn okkar gæti því auðveldað þeim að bjóða gestum sínum upp á góða og fjölbreytta fæðu."

Rannsóknarvinna á Michelin veitingastað

Einar segir að Fjallamatur sé enn að undirbúa það að geta hafið starfsemi, en stefnt sé á að hefja sölu á nokkrum réttum næsta sumar. Á dögunum var Fjallamatur meðal þeirra fyrirtækja sem fengu styrk í flokknum Fræ hjá Tækniþróunarsjóði og segir Einar að styrknum verði m.a. varið í rannsóknarvinnu.

„Ég bý þessa stundina úti í Kaupmannahöfn og er þar að vinna rannsóknarvinnu sem felur í sér starf hjá tveggja stjörnu Michelin veitingastaðnum Noma. Veitingastaðurinn hefur verið þekktur fyrir að vera duglegur að fara ótroðnar slóðir og leggur mikla áherslu á nýsköpun í matargerð.

Markmiðið er því að nýta þessa veru hjá þeim til að dýpka þekkingu mína og færa þekkinguna sem ég afla mér héðan yfir í að gera fjallamatinn eins góðan og kostur er á. Í starfinu hjá Noma hef ég verið mikið í því að prófa mig áfram við að tína afurðir úr náttúrunni til að nýta til matargerðar. Auk þess er ég að læra helling af vinnunni um hvernig skuli bera sig að við að panta mat og hvernig eldhús skuli vera sett upp. Ég er því einnig að auka þekkingu mína á viðskiptahlið matargerðarinnar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .