*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 10. janúar 2019 11:29

Braggamálið rætt í borgarráði

Frumdrög hóps sem settur var á fót í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar borgarinnar um braggamálið voru kynnt í morgun.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri í Reykjavík í krafti meirihluta Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar.
Haraldur Guðjónsson

Hópur sem var settur á til að rýna í niðurstöður innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið, mun kynna frumdrög að því sem hópurinn vill draga út úr skýrslunni á fundi borgarráðs í dag, sem hófst klukkan 9:00 í morgun.

Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson er einn af þremur meðlimum hópsins og hefur Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnt það að Dagur taki þátt í vinnu hópsins. Hildur krafðist þess að Dagur skyldi víkja úr hópnum en Dagur varð ekki við þeirri kröfu Hildar, sem ákvað svo í kjölfarið sjálf að segja sig úr hópnum.

Mikið hefur verið fjallað um braggamálið, enda er um eina stærstu framúrkeyrslu í sögu opinberra framkvæmda hér á landi að ræða.

Bent hefur verið á að borgin brjóti mögulega lög um skjalavörslu fyrst búið sé að farga tölvupóstsamskiptum milli borgarstjóra og æðsta yfirmanns skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar borgarinnar á tímum framkvæmdanna. Hann hefur látið af störfum og jafnframt sagts bera fulla ábyrgð á málinu.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins sagði í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið að borgarstjóri hafi vitað af framúrkeyrslunni, en hún líkti þar bragganum við tjald.