*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 20. desember 2018 14:15

Bragginn „hafi lifað sjálfstæðu lífi“

Innri endurskoðun Reykjavíkur segir að engin skrifleg samskipti hafi verið við borgarstjóra um uppbyggingu Braggans.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum og þess var ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar sem er brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar segir m.a. í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um endurgerð braggans og samliggjandi húsa við Nauthólsveg 100.

Einnig voru brotnar reglur og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar og ákvæðum þjónustusamninga milli mismunandi stofnana borgarinnar. Þar með talið voru ekki gerðar frekari kostnaðaráætlanir.

„Lagt var upp með lágstemmda hugmynd um stúdentabragga með kaffiaðstöðu sem þróaðist í fullbúinn veitingastað og sérhannaða lóð með mun meiri kostnaði en gert var ráð fyrir í upphafi,“ segir í skýrslunni sem segir að þvert á skipulag hafi mál skrifstofu eigna og atvinnuþróunar farið beint til borgarstjóra ekki borgarritara. Jafnframt hafi engin skrifleg samskipti farið á milli skrifstofustjórans og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um málið, en hann tók ákvörðun um að hefja verkefnið.

„Svo virðist sem hvergi hafi verið fylgst með því að verkefnið væri innan fjárheimilda,“ er meðal þess sem segir í skýrslunni, en einnig að eftirlitið hafi verið að flestu leyti ófullnægjandi og að verkefnið hafi að því er virðist lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra en þröngs hóps.

„Svo virðist vera sem verkefnið hafi einhvern veginn „gleymst“ og „týnst“ meðal stærri og meira áberandi verkefna.“ Í skýrslunni segir þó að ekki sé rétt að bera frumkostnaðaráætlun upp á 158 milljónir króna við 425 milljón króna raunkostnað, m.a. því ekki hafi þá legið fyrir útfærsla framkvæmdanna.

Verndunarsjónarmið kostuðu 71 milljón

„Breytingar á upphaflegum hugmyndum eru metnar á 94 m.kr. kostnaður vegna verndunarsjónarmiða 71 m.kr. og síðan 21 m.kr. vegna hreinsunar út úr húsunum og umsýslukostnaðar innan borgarkerfisins. Frumkostnaðaráætlunin að viðbættum ofantöldum liðum gerir því samtals 344 m.kr,“ segir í skýrslunni, sem þó segir á öðrum stað:

„Samstarf var haft við Borgarsögusafn og Minjastofnun við framkvæmdirnar en þessar stofnanir gerðu ekki kröfu um að húsin yrðu varðveitt óbreytt, enda eru þau hverfisvernduð í deiliskipulagi en ekki friðuð í skilningi laga. Í uppbyggingunni var haldið fast í eldra útlit að sumu leyti, en að öðru leyti ekki, að því er virðist eftir hugmyndum arkitekta.“

Borgarsstjóra hefur sjálfum, auk formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihlutanum verið falið að móta tillögur að viðbrögðum við ábendingum Innri endurskoðunar.