Bragi Þór Antoníusson hefur verið ráðinn markaðsstjóri TripCreator ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Bragi útskrifaðist með B.A. gráðu í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2013 og fór svo í meistaranám í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands.

Síðastliðið ár hefur hann starfað hjá Kapli Markaðsráðgjöf þar sem hann veitti fyrirtækjum ráðgjöf í almennri stefnumótun og markaðssetningu á netinu.

TripCreator ehf. er nýsköpunarfyrirtæki sem hefur undanfarin þrjú ár þróað vef sem skipuleggur sjálfkrafa ferðir til Íslands út frá forsendum hvers notanda fyrir sig. Notandinn getur svo breytt og bætt ferðaáætlun sinni og bókað alla gistingu, afþreyingu og bílaleigubíla í gegnum vefinn.

Vefurinn fór í loftið í vor og kemur fram í tilkynningu að nú þegar hafi notendur nýtt sér hann til þess að bóka yfir þúsund gistinætur og dagsferðir ásamt hundruðum bílaleigubíla. TripCreator stefnir á að færa út kvíarnar og opna fyrir nýja áfangastaði snemma á næsta ári.