Allir eru að tala um Bitcoin – og ekki að ástæðulausu.

Þessi þekktasta rafmynt heims hefur verið í fordæmalausum bolamarkaði. Í byrjun árs fór gengi Bitcoin gagnvart Bandaríkjadal í fyrsta skipti upp fyrir eitt þúsund dali fyrir hverja Bitcoin mynt. Rúmlega níu mánuðum síðar í október fór verðið á Bitcoin upp fyrir 5 þúsund dollara og í lok nóvember hafði það tvöfaldast. Í síðustu viku gekk Bitcoin síðan berserksgang og fór verðið upp fyrir 17 þúsund dollara. Í nokkrum kauphöllum fór verðið jafnvel upp fyrir 20 þúsund dollara.

Frá áramótum hefur gengi Bitcoin 17-faldast. Markaðsvirði Bitcoin er nú í kringum 300 milljarðar Bandaríkjadollarar, eða rúmlega 31,6 þúsund milljarðar íslenskra króna. Til samanburðar er markaðsvirði Visa, sem rekur stærstu greiðslumiðlun í heiminum, um 258 milljarðar dollara. Virði Bitcoin hefur hækkað svo mikið að andvirði Bitcoin-forðans sem stjórnvöld í Búlgaríu lögðu hald á í maí síðastliðnum vegna tollasviks gæti minnkað skuldir búlgarska ríkisins um fimmtung.

Á ævintýralegri uppleið sinni hefur Bitcoin hins vegar vakið hörð viðbrögð margra þekktra hagfræðinga, fjárfesta og forstjóra. Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase, hefur til að mynda kallað Bitcoin „svindl“. Nobelsverðlaunahafar í hagfræði á borð við Robert Shiller og Joseph Stiglitz hafa sagt Bitcoin vera fjármálabólu. Heimsþekktir fjárfestar á borð við Warren Buffet og Ray Dalio hafa tekið í sama streng. Carl Icahn hefur jafnvel lýst því yfir að hann skilji hreinlega ekki Bitcoin.

Á sama tíma virðist Bitcoin njóta sívaxandi útbreiðslu. Almennir fjárfestar um allan heim freistast til að stökkva á vagninn og fara á háflug með Bitcoin áður en það er um seinan. Sífellt fleiri söluaðilar taka við Bitcoin sem gjaldgengri mynt í viðskiptum. Á morgun hyggst CME Group, ein stærsta afleiðukauphöll heims, hefja sölu á framvirkum samningum með Bitcoin. Önnur stærsta kauphöll í heiminum, Nasdaq, stefnir að því að gera slíkt hið sama á nýja árinu.

Árið 2017 hefur þannig verið sannkallað tímamótaár fyrir Bitcoin. En hvað er eiginlega Bitcoin og af hverju hefur hún hækkað svo mikið í verði?

Dularfulli Japaninn og kubbakeðjan

Bitcoin er rafrænn gjaldmiðill – svokallaður rafeyrir eða netgjaldmiðill. Rafmyntin var kynnt til leiks árið 2009 undir dulnefninu Satoshi Nakamoto. Ekki er vitað hver eða hverjir stóðu raunverulega að Bitcoin í upphafi, en þessi dularfulli Japani hannaði hugbúnaðarkerfi sem gerði fólki kleift að fá rafræna vöru sem umbun fyrir að leysa flókin stærðfræðivandamál. Hugmyndin var síðan að hægt væri að nota þessa óáþreifanlegu vöru sem mynt í viðskiptum með gjaldmiðla, vörur og þjónustu á netinu.

Hluti af sköpunarverki Nakamoto tryggði einnig að framboð af Bitcoin í heiminum myndi aukast með fyrirsjáanlegum hætti. Fyrir árið 2140 er tryggt að framboð af Bitcoin nái hámarki við 21 milljón. Bitcoin hermir þannig eftir eiginleikum vara sem eru af skornum skammti og metin til fjár, svo sem góðmálmum.

Flestir peningar í dag eru rafrænir – runa af einum og núllum í tölvukerfi. Bitcoin er hins vegar heimsins fyrsta ómiðlæga rafmynt. Bitcoin er ekki gefið út af seðlabanka með einokun á útgáfu peninga og vald til að rýra verðgildi þeirra með peningaprentun. Rafmyntin er einnig óháð eftirliti yfirvalda, reglusetningu og skilmálum. Bitcoin kerfið er svokallað jafningjanet (e. peer-to-peer network ), þar sem fólk getur stundað viðskipti og millifærslur með Bitcoin með beinum hætti sín á milli, án tilhlutunar banka eða annarra fjármálastofnana. Þetta er gert í gegnum dulkóðun, sem tryggir nafnleynd og öryggi. Færslur í Bitcoin-kerfinu eru staðfestar af kjarneiningum (e. nodes ) á netinu og skráðar um leið í opinbert og rafrænt bókhald sem á ensku kallast blockchain eða kubbakeðja á íslensku. Kubbakeðjan heldur utan um allar færslur með Bitcoin; hvaðan þær komu, hvenær og hvert þær fóru. Bitcoin-peningarnir eru geymdir í stafrænu veski í síma eða tölvu. Fjölmargar rafmyntir hafa verið þróaðar til að líkja eftir Bitcoin, svo sem Ethereum, sem einnig hafa hækkað í verði að undanförnu.

Hugmyndin á bak við Bitcoin er byltingarkennd. Rafmyntin og tæknin sem hún grundvallast á gerir fólki kleift að millifæra hvaða peningalega upphæð til hvers sem er, hvar sem er í heiminum, með fljótlegum og einföldum hætti og lágum viðskiptakostnaði. Og það er ekkert – eða fátt – sem bankar, stjórnvöld, fyrirtæki og eftirlitsaðilar geta gert í því.

Eftirlæti lýðræðissinna og glæpamanna

Bitcoin hefur ýmsa kosti og veikleika. Bitcoin er spennandi valkostur fyrir þá sem vilja umbylta og umbreyta fjármálakerfi heimsins. Með notkun Bitcoin er grafið undan einokunarvaldi ríkisins yfir útgáfu peninga og afskiptum þess af frjálsum viðskiptum. Margir líta á fjárfestingu í Bitcoin, líkt og fjárfestingu í gulli, sem áhættuvörn gegn verðbólguáhættu fótalauss fjár (e. fiat money ) eða pólitískri áhættu. Bitcoin auðveldar einnig á margan hátt greiðslumiðlun og dregur úr viðskiptakostnaði.

Stærsti galli Bitcoin er hins vegar sá rafmyntin hefur hvergi náð almennri útbreiðslu sem gjaldmiðill. Þeim sölustöðum fer fjölgandi sem taka við greiðslu í Bitcoin og rafeyri almennt. En þeir eru enn fáir, enda hefur Bitcoin átt erfitt með að uppfylla hlutverk peninga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .