Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin, verða veitt á ÍMARK daginn í Háskólabíó 13.mars næstkomandi. ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks í samráði við SÍA, Samband íslenskra auglýsingastofa, verðlaunar í næstu viku auglýsingar sem sendar voru inn í Lúðurinn og er þetta í tuttugasta og níunda sinn sem verðlaunin eru afhent.

Í tilkynningu kemur fram að í ár fá auglýsingastofurnar Brandenburg og Jónsson & Le’macks flestu tilnefningarnar en Brandenburg fékk tólf tilnefningar og Jónsson & Le’macks er með ellefu.

Íslenska auglýsingastofan fylgir svo á eftir með átta tilnefningar. Hvíta húsið, ENNEMM og Pipar\TBWA eru svo jafnar með sex tilnefningar hver. Döðlur og E&Co fengu tvær tilnefningar hvor og H:N Markaðssamskipti og Playmo eina tilnefningu hvor.

Sama dag, ÍMARK daginn, er ráðstefna í Háskólabíó sem ber yfirskriftina „Content Marketing“ eða efnismarkaðssetning. Þar munu koma fram fimm erlendir fyrirlesarar og deila með gestum hvað efnismarkaðssetning er og sinni reynslu. Þetta eru fyrirtækin JetBlue, Einstök Ölgerð, Bibblio, Havas Worldwide og DRUM.