Auglýsingastofan Brandenburg og stafræna miðlunarfyrirtækið Inn/ut hafa stofnað saman nýtt stafrænt ráðgjafar- og birtingafyrirtæki, sem kallast Datera. Starfsemi Inn/ut flyst um leið í hið nýja félag. Datera sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu, stjórnun stafrænna gagnadrifinna herferða, uppsetningu sjálfvirkra auglýsingaherferða, leitarvélabestun og alhliða ráðgjöf á sviði stafrænnar markaðssetningar.

Með stofnun Datera verður til stafrænt snjallbirtingahús með yfirgripsmikla sérþekkingu á markaðsstarfi í stafrænum nútíma. Fyrirtækið starfar á grundvelli „stafræns forgangs“ (e. digital first) nálgunar sem er ný og nauðsynleg hugsun í nútíma markaðsstarfi og birtingum.

Markmiðið er að hámarka árangur og nýtingu markaðsfjár fyrirtækja en um leið að lágmarka vinnu með nýtingu nýjustu tæknilausna. Lögð verður áhersla á samspil greiningar og árangursmiðaðrar efnismarkaðssetningar, birtinga og eftirfylgni, sem byggð er á rauntíma tölfræði og sjálfvirkni.

Tryggvi Freyr Elínarson, framkvæmdastjóri Datera og eigandi Inn/ut, hefur víðtæka reynslu af stafrænni miðlun. Hann hefur starfað að markaðs- og birtingamálum í tvo áratugi, þar á meðal með leiðandi fyrirtækjum í auglýsingatæknilausnum (ad tech/mar tech). Hann hefur náð eftirtektarverðum árangri fyrir ýmis stórfyrirtæki á Íslandi og erlendis með samþættingu hefðbundinna og stafrænna miðlunarleiða, nýtingu gagna og birtinga sem nýta sjálfvirkni og gervigreind til árangurs. Auk Tryggva hafa þeir Hörður Kristófer Bergsson og Guðni Birkir Ólafsson nú þegar tekið til starfa hjá Datera.

„Það er ákaflega ánægjulegt að ýta Datera úr vör í samstarfi við sterkan samstarfsaðila eins og Brandenburg“ segir Tryggvi Freyr. „Í dag er ekki lengur hægt að tala um annars vegar hefðbundið markaðsstarf og hins vegar stafrænt, því þetta þarf allt að vinna saman sem ein heild. Tryggja þarf að efni og auglýsingar henti leikreglum ólíkra miðla og mismunandi neyslu ólíkra markhópa á þeim. Við sjáum daglega árangurinn af þeirri nálgun og ekki síður hversu miklum árangri er hægt að ná á þennan hátt. Við hlökkum mikið til að sýna nýjum samstarfsaðilum fram á það.“

„Stofnun Datera er virkilega öflug viðbót við starfsemi stofunnar,“ segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburgar. „Við erum alltaf að leita leiða til að verða betri í því sem við gerum, meðal annars með því að bjóða viðskiptavinum okkar upp á nýjar og snjallari lausnir í markaðssetningu á netinu til viðbótar við okkar hefðbundnu birtingaþjónustu. Við höfum verið valin stofa ársins af íslensku markaðsfólki tvö síðustu ár og stofnun Datera er liður í því að verða enn betri stofa.“