Matsfyrirtækið Standard and Poor‘s hefur lækkað lánshæfiseinkunn Brasilíu niður í ruslflokk. Brasilía hefur verið í fjárfestingarflokki frá því í apríl 2008 en nú er ekki ráðlagt að fjárfesta þar.

Ekki er langt síðan Brasilía þótti vera eitt af mest spennandi nýmarkaðsríkjunum. Hins vegar hefur lækkandi hrávöruverð og há verðbólga haft slæm áhrif á efnahaginn þar. Þá hefur mikil spilling einnig fælt fjárfesta frá.

Önnur matsfyrirtæki hafa enn ekki fært Brasilíu í ruslflokk en þessar fréttir eru samt sem áður áfall fyrir þarlend stjórnvöld. Hagkerfið hefur upplifað samdrátt undanfarna tvo ársfjórðunga og mun líklega halda því áfram.

Ljóst er að ákvörðun S&P er einnig tekin vegna pólitíska landslagsins í Brasilíu. Undir fyrrum forsetanum Luis Inacio Lula da Silva snemma eftir aldamótin trúðu íbúar því að hægt yrði að útrýma spillingu, stækka millistéttina og koma Brasilíu á kortið á alþjóðamarkaði. Hátt hrávöruverð gerði þjóðina ríka.

Fyrir ári fór hins vegar af stað aðgerð til að uppræta spillingu og þar kom í ljós að hún var út um allt. Flokkur Lula, sem er nú undir handleiðslu forsetans Dilmu Rousseff, var að nota ríkisolíufyrirtækið Petrobras sem sinn eigin sparibauk. Petrobras skandallinn hefur eyðilagt trú fjárfesta á Brasilíu og féllu hlutabréf í fyrirtækinu um 50 prósent frá því í ágúst 2014 fram að áramótum. Hlutabréfamarkaðurinn í heild fylgdi með, og Petrobras féll svo aftur þegar olíuverð hrundi á þessu ári.

Forsetinn Rousseff nýtur nú einungis trausts 7 prósenta íbúa og hafa jafnvel margir þeirra kallað eftir því að herforingastjórn taki aftur yfir Brasilíu.