Helga Hauksdóttir lögmaður hóf störf hjá Land lögmönnum í vor. Hún flutti sig um set í maí. Hún segir nýja starfið leggjast rosalega vel í sig. Helga hefur sérhæft sig í skattaog félagarétti og starfaði síðast hjá Ernst & Young. Aðspurð segir hún mun á verkefnunum í nýju starfi. „Maður getur sinnt fjölbreyttari störfum sem lögmaður en þegar maður er að vinna sem lögfræðingur,“ segir Helga.

Helga er lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún var skiptinemi í einn vetur í Erasmus háskólanum í Rotterdam. Áður en hún starfaði hjá Ernst & Young starfaði hún hjá Tollstjóranum í Reykjavík, fyrst sem lögfræðingur á Tollasviði og svo sem deildarstjóri lögfræðideildar á Tollasviði.

Mikill ferðalangur

Helga hefur mjög gaman af ferðalögum og hefur verið dugleg að ferðast. Spennandi ferðalög eru fram undan hjá henni. „Ég og maðurinn minn erum á leiðinni með lögfræðingafélaginu til Víetnam og Kambódíu í vetur. Svo förum við til Havaí um næstu páska,“ segir Helga. Hún segir þau bæði fara í lengri og styttri ferðalög erlendis, en að þau hafi ekki verið nógu dugleg að ferðast innanlands. Þau reyni þó að fara í eitt innanlandsferðalag á ári með börnin.

Helga segir Brasilíu vera uppáhaldsland sitt. „Við erum búin að fara tvisvar til Brasilíu og eigum vinafólk þar, og þar er alveg yndislegt að vera,“ segir Helga. „Það er ótrúlega spennandi land, það er svo ólíkt Íslandi og menningin, náttúran og maturinn þar eru svo æðisleg. Þetta er mjög skemmtilegt land heim að sækja,“ segir Helga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .