Brasilía og Argentína munu tilkynna í vikunni um að þjóðirnar hyggist hefja undirbúningsvinnu vegna nýs sameiginlegs gjaldmiðils, sem yrði hluti af næst stærsta myntbandalagi heims, að því er Financial Times greinir frá.

Tvær stærstu þjóðir Suður-Ameríku munu ræða um áformin á leiðtogafundi í Búenos Aíres í vikunni. Öðrum þjóðum álfunnar verður boðin þátttaka í myntbandalaginu. Til stendur að í fyrstu verði brasilíska ríalið og argentínski pesóinn áfram í umferð samhliða hinum nýja gjaldmiðli, sem Brasilía hefur lagt til að fái nafnið „sur“ (suður).

Áhersla verður lögð á tækifæri til að reiða sig minna á Bandaríkjadollarann og auka alþjóðleg viðskipti að sögn embættismanna sem ræddu við FT.

Sergio Massa, efnahagsráðherra Argentína, segir að skoða þurfi ýmis atriði á borð við hlutverk seðlabanka undir myntbandalaginu og hvaða skorður þurfi að setja ríkisfjármálum. Hann tók þó fram að nýr gjaldmiðill eigi þó langt í land og benti á að það hafi tekið Evrópu 35 ár að búa til evruna.

„Ég vil ekki búa til falskar væntingar [...] þetta er fyrsta skrefið á því langa ferðalagi sem Rómanska Ameríka þarf að fara í,“ er haft eftir Massa.

Taki allar þjóðir Rómönsku Ameríku þátt í myntbandalaginu, þá myndi það ná til 5% af heimsframleiðslu. Til samanburðar samsvara þjóðir með evruna um 14% af heimsframleiðslu.

Sameiginlegur gjaldmiðill ku vera einkar aðlaðandi fyrir Argentínu sem glímir nú við yfir 90% verðbólgu en seðlabanki landsins hefur óspart prentað peninga til að fjármagna ríkisútgjöld. Peningamagn í umferð á fyrstu þremur árum Alberto Fernández í forsetaembættinu hefur fjórfaldast.