Brasilíubúar hafa fleiri tilefni en Heimsmeistaramótið í knattspyrnu til að fagna í dag, en Brasilíski gjaldmiðillinn, Real, er 20 ára.

Gjaldmiðillinn, sem var tekinn upp árið 1994, er talinn hafa skipt sköpum við að ráða niðurlögum óðaverðbólgu og efnahagslegs óstöðugleika sem hafði ríkt í landinu síðustu árin á undan. Margir íbúar Brasilíu eiga slæmar minningar frá árunum í kringum 1990 þegar fólk þurfti að drífa sig í verslun um leið og það fékk útborgað, vegna þess að vörur hækkuðu svo hratt í verði. Árið 1993 var ársverbólga t.a.m. um 2.000%.

Þegar Brasilía tók upp Real árið 1994 hafði verið skipt um gjaldmiðil fimm sinnum á síðasta áratug, án árangurs. Ári eftir að gjaldmiðillinn var tekinn upp lækkaði verðbólgan hins vegar strax niður í 22% og smám saman lækkaði hún meira. Árangur sem fylgdi nýja gjaldmiðlinum var því í raun meiri en fólki hafði órað fyrir.

Verðbólga í Brasilíu í dag mælist um 6%. Verðbólgumarkmið seðlabankans þar eru 4,5%, með tveggja prósentustiga skekkjumörkum. Margir hagfræðingar í Brasilíu hafa áhyggjur af verðbólgunni. Þó að óðaverðbólga, líkt og tíðkaðist í kringum 1990, blasi ekki við íbúum landsins finnst mörgum verðbólgan of há og krefjast þess að stjórnvöld lækki verðbólgumarkmiðið.

BBC sagði frá.