„Ég er Gert Brask,“ segir góðlegur og rólegur Grænlendingur á miðjum aldri þegar hann gengur út úr Fokker 100 vél Greenland Express sem lenti í annað skiptið á Keflavíkurflugvelli um miðjan júnímánuð. Hann skar sig ekki úr á meðal hinna farþeganna fyrir utan þær sakir að hver og einn þeirra kom upp að honum, tók í höndina á honum og þakkaði honum fyrir flugið með bros á vör.

Hann gekk í kringum flugvélina mjög yfirvegaður, klæddur skærgulu vesti og ræddi við starfsmenn flugvallarins án þess þó að virðast vera ábyrgðarmaður vélarinnar. Þótt Brask beri ekki með sér yfirbragð stjórnanda flugfélags (og eftirnafnið honum ekki beinlínis hliðhollt á íslenskri tungu) er augljós dugnaður og lausnamiðað hugarfar hans áberandi frá fyrstu kynnum.

Of dýrt að fljúga til Grænlands

„Mér fannst einfaldlega of dýrt að fljúga til Grænlands,“ segir hann þegar við göngum inn í flugvélina og fáum okkur sæti í miðju farfarþegarýminu.

„Gott dæmi var þegar faðir konunnar minnar veiktist um jólin. Við erum grænlensk en búum í Danmörku ásamt tvíburadætrum okkar. Hún og önnur dætra okkar þurftu að greiða 42.000 danskar krónur (um 870.000 íslenskar krónur) til þess að fara þangað. Ég og hin dóttir mín gátum ekki komist með vegna þessa.“

Þannig að þú ákvaðst að stofna flugfélag?

„Já,“ svarar Brask. „Mér fannst ég þurfa að gera eitthvað í þessu.“ En hver er bakgrunnur þinn? „Bakgrunnur minn?“ spyr Brask og svarar um hæl. „Ég hef enga menntun. Ekki neina.“

Nánar er rætt við Brask í Flugblaðinu, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .