Óvenjumargir starfsmenn í höfuðstöðvum Kaupþings tilkynntu sig veika með magapest í dag.

Í fyrstu töldu starfsmenn, sem Viðskiptablaðið ræddi við, að um matareitrun væri að ræða þar sem svo margir á sama vinnustað veiktust. Það reyndist ekki vera svo.

Bryndís Jónsdóttir, í starfsmannahaldi Kaupþings, sendi tölvupóst á starfsmenn í morgun og sagði litlar líkur á að þetta væri matareitrun þar sem starfsmenn, sem ekki borðuðu í mötuneytinu, væru einnig veikir.

„Ef þetta er magapest þá virðist hún vera bráðsmitandi.  Við viljum því biðja ykkur um að takmarka fundahöld og bein samskipti eins og þið getið,“ skrifaði Bryndís.

„Við fyrstu sýn virðist þetta vera venjuleg magapest,“ segir Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Kaupþings. Vegna þess séu gerðar hefðbundnar varrúðarráðstafanir til að forða fleirum frá smiti. Hún segist ekki búin að fá endanlegar upplýsingar um fjölda starfsmanna sem veiktust.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa nálægt 70 einstaklingar tilkynnt sig veika.

Uppfært: 17.39