Brasilíumenn eru ekki aðeins á fullri ferð í efnahagslífinu. Þeir undirbúa nú bæði HM í fótbolta 2014 og Ólympíuleikana í Ríó tveimur árum síðar.

Tuttugusta heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu fer fram árið 2014 í Brasilíu. Undirbúningurinn er þegar kominn vel á veg hjá heimamönnum, sem ætla sér að halda glæsilegasta og umfangsmesta heimsmeistaramót frá upphafi, í sjálfri vöggu fótboltans eins og Brasilía er gjarnan kölluð. Brasilía hefur reyndar aldrei í sögunni staðið betur en nú. Hagvöxtur í landinu hefur verið á bilinu 7 til 10 prósent undanfarin sex ár og hefur heimskreppan nánast engin áhrif haft á ört vaxandi efnahag landsins. Íþróttalífið nýtur góðs af þessu.

Vilja fá allt til baka

En HM í fótbolta er ekki eina stórmótið í íþróttum sem haldið verður í landinu á næstu árum. Árið 2016 munu Ólympíleikarnir fara fram í Ríó. Þar er stefnan sú sama; að halda glæsilegustu Ólympíuleika sögunnar. Heildarkostnaður þessara tveggja móta er áætlaður 1.000 milljarðar íslenskra króna. Eru ekki taldar með breytingar sem borgaryfirvöld í Ríó hafa þegar skipulagt og að hluta ráðist í. Um er að ræða niðurrif á fátækrahverfum þar sem glæpir og fíkniefnasala hafa verið daglegt brauð árum saman. Með þessu vilja borgaryfirvöld slá tvær flugur í einu höggi: Þurrka burt samfélagsmein og reisa íþróttamannvirki í staðinn.

Allt til alls

Brasilía hefur á um tíu árum breyst gífurlega hratt. Ástæðan er fyrst og fremst gríðarlega öflugur útflutningsgeiri og frumframleiðsluiðnaður. Eftirspurn í Asíu eftir alls konar vörum sem Brasilíumenn framleiða, s.s. olíu og matvælum, hefur rokið upp og í raun viðhaldið þeim mikla hagvexti sem hefur verið á ári hverju undanfarið. Seint á síðasta ári fundust við landið mestu olíuauðlindir sem fundist hafa í heiminum undanfarin 15 ár, þannig að ekki eru Brasilíumenn að fara slaka á, ef þannig má að orði komast. Þeir hafa allt til alls til þess að vera í fremstu röð efnahagslega, alveg eins og í knattspyrnunni.