Svigrúm til árlegra launahækkana án neikvæðra áhrifa á verðbólgu er 3,5%. Meiri launahækkanir leiða að jafnaði til hærri verðbólgu, og mikil verðbólga dregur úr velferð. Brattar launahækkanir leiða því ekki til aukins kaupmáttar heldur draga úr hagvexti og velferð til lengdar. Þetta kemur fram í samantekt um möguleg áhrif kjarasamning á efnahagsmál sem Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í dagleg áhrif.

Fram kemur í samantektinni að verði samningum lokið í samræmi við opinbert til boð SA mun verðbólga hækka vel umfram markmið Seðlabankans. Bankinn verður því að hækka vexti. Fjárfesting mun minnka, krónan mun styrkjast í fyrstu en veikjast í kjölfarið, atvinnuleysi mun aukast eða vinnutími styttast og hagvöxtur verður minni en ella. Svigrúm ríkissjóðs til sértækra aðgerða til að liðka fyrir samningum við slíkar aðstæður er lítið.

Launahækkanir sem samræmast efnahagslegum stöðugleika gefa ríkissjóði fjárhagslegt svigrúm til þess að koma til móts við þá hópa sem þurfa mest á stuðningi að halda og til þess að örva vaxtargetu hagkerfisins öllum til hagsbóta. Seðlabankanum ber að stuðla að stöðugu verðlagi og beitir til þess stýritækjum sínum, ekki síst ákvörðun vaxta. Launahækkanir í samræmi við svigrúm hagkerfisins geta því gefið tilefni til fjárhagslegrar aðkomu ríkissjóðs og lægri vaxta en ella.

Fram kemur í samantektinni að áhrif launahækkana nú séu líklega meiri en árin 2011 og 2014. Árið 2011 var svigrúm til þess að hækka það hlutfall sem fór í laun og launatengd gjöld eftir því sem skuldahlutföll lækkuðu, þar sem hlutfall launa af vergum þáttatekjum var undir sögulegu meðaltali. Lítil alþjóðleg verðbólga hélt aftur af innlendri verðbólgu árið 2014. Innlent verðlag hækkaði mun meira en vísitala neysluverðs, en verðbólguvæntingar héldust nokkuð stöðugar enda launahækkanir mun minni en nú er rætt um.