*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Innlent 1. febrúar 2018 10:24

Brattari aðlögun í kortunum

Greining Íslandsbanka hefur fært niður hagspá sína. Spáð er að hagvöxtur hafi verið 4,1% í fyrra en að hann verði 2,3% í ár og á næsta ári.

Snorri Páll Gunnarsson
Horfur eru á minni hagvexti en gert hafði verið ráð fyrir síðastliðið haust vegna hægari fjölgun ferðamanna og minni fjárfestinga í ferðaþjónustugeiranum.
Haraldur Guðjónsson

Greining Íslandsbanka spáir töluvert hægari hagvexti á næstunni en gert hafði verið ráð fyrir síðastliðið haust. Var þá spáð 4,5% hagvexti árið 2017, 2,8% í ár og 2,3% á næsta ári. Nú er áætlað að hagkerfið hafi vaxið um 4,1% í fyrra og að hagvöxtur verði 2,3% í ár og á næsta ári.

Þetta kemur fram í uppfærðri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka til ársins 2019, sem birt verður í dag. Hagvaxtarspáin er nokkuð hóflegri en spár annarra greiningaraðila, sem allar eru frá því í október og nóvember.

„Lending hagkerfisins virðist ætla að verða hraðari og brattari en við gerðum ráð fyrir í síðustu spá,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Munurinn liggur einkum í hægari vexti í tekjuöflun ferðaþjónustunnar. 

„Það var gríðarlega mikil fjölgun í komum ferðamanna hingað til lands þar til síðastliðið vor. Þá fóru horfur að breytast. Ferðamönnum fjölgaði minna en spár sögðu til um og það fóru að koma fram skýr merki um breytta neysluhegðun ferðamanna, svo sem samdráttur í neyslu og styttri dvalartími, enda Íslandsdvölin orðin dýr.

Fyrir ferðaþjónustugeirann þýðir þetta hægari vöxt í tekjuöflun. Það hefur síðan áhrif á fjárfestingaráform ferðaþjónustufyrirtækja. Við höfum vísbendingar um að ferðaþjónustan hafi brugðist nokkuð fljótt við þessum breyttu horfum, til dæmis með minni fjárfestingum í bílaleigum, stærri farartækjum og hótelum. Það smitast síðan yfir í aðra geira.

Þar sem ferðaþjónustan er helsta útflutningsgrein Íslands er því útlit fyrir að hægari vöxtur hennar tempri hagvöxtinn með minni þjónustuútflutningi og atvinnuvegafjárfestingu.“

Í takt við hagvöxt þróaðra ríkja

Þrátt fyrir að Greining Íslandsbanka spái minni hagvexti en áður er útlit fyrir að hagvöxtur hér á landi færist nær því sem þekkist í þróuðum ríkjum.

Hagvöxtur á Íslandi hefur verið nokkuð yfir hagvexti þróaðra ríkja undanfarin fimm ár, meðal annars vegna hratt vaxandi ferðaþjónustu, aukinnar atvinnuvegafjárfestingar, hagstæðra ytri skilyrða, vaxandi kaupmáttar heimila og farsællar lausnar á þeim vandamálum sem hrun fjármálakerfisins skapaði í lok síðasta áratugar.

Greiningin telur tímabil vaxtar íslenska hagkerfisins á hraða nýmarkaðsríkja þó að baki. Helstu atvinnugreinar landsins séu orðnar þroskaðar, ekki er útlit fyrir hraðan framleiðnivöxt í hagkerfinu og lífskjör hérlendis eru með því besta sem gerist um þessar mundir.

Spáð er að verðbólga verði að jafnaði í kringum 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á spátímanum og að stýrivextir verði lækkaðir um 50 punkta. Heimilin verða hryggjarstykki hagvaxtarins, en spáð er 4,7% vexti einkaneyslu og 8% vexti íbúðafjárfestingar. Gert er ráð fyrir áframhaldandi en minnkandi viðskiptaafgangi í boði vaxandi ferðaþjónustu. Þá verður fjárfesting nær jafnvægi á spátímanum, eða í kringum 22%. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.