Hagnaður Brauð & Co nam 27 milljónum króna á síðasta ári, en félagið hóf starfsemi sína þá um vorið. Fyrsta bakarí félagsins opnaði á Frakkastíg en í vor á þessu ári opnaði félagið annað bakarí sitt í húsnæði Gló í Fákafeni. Auk þess stefnir bakaríið að opnun í Mathöllinni á Hlemmi og við hlið Kaffihús Vesturbæjar við Melhaga að því er segir í Morgunblaðinu í dag.

Tekjur félagsins á síðasta ári námu 207 milljónum króna, en hlutafé félagsins var aukið um 29,5 milljónir króna sama ár. Gló veitingahús eiga 51% hlut í bakaríinu, Lúkas, félag í eigu Þóris Snæs Sigurjónssonar kvikmyndaframleiðenda á 31% og Ágúst Fannar Einþórsson framkvæmdastjóri félagsins og lærður konditori-meistari á 18% í félaginu.

Ágúst Fannar segir reksturinn hafa gengið vonum framar. „Við hittum á eitthvað sem er spennandi,“ segir Ágúst sem segir erlenda aðila hafa haft samband og lýst yfir áhuga á að setja upp sambærilegan rekstur í sínum löndum. „Þeir sjá skemmtilegt „konseft“ sem gaman væri að opna í heimalandinu. En það er ekki komið neitt lengra.“