Bréf tryggingarisans AIG hrundu í dag eftir að lánshæfiseinkun fyrirtækisins var lækkuð. Það jók á áhyggjur manna af félagið stefni í gjaldþrot, sem myndi valda enn frekari óróa á mörkuðum.

Lánshæfismatsfyrirtækin Moody´s og Standard & Poor´s lækkuðu bæði einkunnir AIG fyrir langtímaskuldir, S&P um þrjú þrep niður í A- og Moody´s um tvö þrep niður í A2. Í Vegvísi Landsbankans er greint frá því að lækkun lánshæfismatsins valdi því að AIG þarf nú þegar að standa skil á veði vegna skilmála í mörgum afleiðusamningum sem félagið hefur gert við fjármálafyrirtæki.

Hlutabréf AIG lækkuðu um 1,01 dal á hlut í dag og stóðu í 3,75 dölum á hlut við lokun markaða. Það er 21% lækkun, en um tíma stóðu bréf AIG í 1,25 dal á hlut.

Bréf AIG lækkuðu um 60,8% í gær (mánudag).

Talið er að áhrif af greiðslustöðvun eða gjaldþroti AIG yrðu svo alvarleg að seðlabankinn og aðrir eftirlitsaðilar í Bandaríkjunum myndu reyna til þrautar að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Auk þess að vera eitt stærsta tryggingafélag heims er AIG mikilvægur mótaðili í viðskiptum með afleiður og skuldatryggingar.