*

sunnudagur, 26. september 2021
Erlent 11. desember 2020 10:22

Bréf Airbnb tvöfaldast á fyrsta degi

Hlutabréf í Airbnb rúmlega tvöfölduðust í gær er félagið var skráð í kauphöll Nasdaq. Markaðsvirði Airbnb er um 86 milljarðar dollara.

Ritstjórn
epa

Airbnb var skráð á hlutabréfamarkað í gær og hækkuðu bréf félagsins um 113% á fyrsta viðskiptadegi. Við lokun markaða í gær stóð hvert bréf í 145 dollurum en útboðsgengið nam 68 dollurum.

Þá hafði útboðsgengið verið hækkað sífellt en upphaflega stóð til að útboðsgengið yrði á bilinu 44 til 50 dollarar. Fyrir opnun markaða vestanhafs hafa bréf Airbnb lækkað um 1,5%.

Markaðsvirði Airbnb er nú um 86 milljarðar dollarar, andvirði um ellefu þúsund milljarðar króna. Félagið er því meira virði en hótelkeðjur á borð við Marriott og Hilton, að því er segir í frétt CNBC um málið.

Um er að ræða tíundu mestu hækkun sem orðið hefur á hlutabréfi sama dag og þau eru skráð á hlutabréfamarkað vestanhafs á þessu ári. Vert er að nefna að rekstur Airbnb hefur sjaldan ef einhvern tímann staðið jafn höllum fæti og nú sökum áhrifa af kórónufaraldrinum. 

Stikkorð: Airbnb