Gengi bréfa Aramco, stærsta olíufélags heims, í kauphöllinni í Sádi Arabíu er komið næstum því í útboðsgengið frá því fyrir tæpum tveim vikum síðan, og hafa bréfin því misst nánast alla styrkinguna sem var fyrstu daga viðskipta með bréfin.

Eins og Viðskiptablaðið sagði ítarlega frá í síðasta tölublaði voru væntingar stjórnvalda í Sádi Arabíu um útboðið, sem var það stærsta í sögunni ef horft er á verðmæti félagsins, töluvert hærri en gekk eftir að lokum.

Þannig taldi krónprins landsins að við útboð bréfa í ríkisolíufélaginu myndi verðmæti þess verða um 2.000 milljarðar Bandaríkjadala, en þegar búið var að selja þau 1,5% í félaginu sem sett voru á markað nam markaðsvirðið um 1.700 milljörðum dala.

Í kjölfar þess að viðskipti hófust með bréfin 11. desember síðastliðinn, hækkaði gengi bréfa félagsins, úr 35,20 sádi arabískum rials, og fór það hæst í 38,0 sar á mánudaginn 16. desember. Er það nærri 8% hækkun, en nú er það komið í 35,30 sar eftir 0,56% lækkun í kauphöllinni í dag. og nemur lækkunin frá því á mánudag 7,1%.

Viðskipti í kauphöll landsins, Tadawul, fara fram frá sunnudegi til fimmtudags, en um tíma í dag fóru bréfin undir útboðsgengið, eða allt niður í 35,05 sar, eftir um 1,7% lækkun á tímabili, en það hefur dregið síðan úr henni. Lækkunin nú er nokkuð í mótsögn við þróun hlutabréfa í olíugeiranum samhliða hækkandi olíuverði og kemur því á óvart samkvæmt greinanda.

Bloomberg fréttaveitan hefur eftir greinandanum sem starfar hjá Al Mal Capital í Dubai, Vrajesh Bhandari, að fjárfestar gætu verið að sækja hagnað, og draga úr áhættu, fyrir uppgjör ársins.