Breski viðskiptabankinn Barclays tilkynnti um afkomu síðasta árs í dag. Hagnaður félagsins dróst saman um 2% og nam 5,4 milljörðum punda. Það eru um 814,5 milljarðar íslenskra króna. Arðgreiðslur félagsins dragast því saman um 3 pence á hvern hlut, eða um helming.

Hlutabréfaverð bankans féll um 11% eftir að tilkynnt var um afkomuna. Á sama tíma tilkynnti bankastjóri Barclays um ákvörðun félagsins um að selja 62% hlut sinn í dótturfélaginu Barclays Africa, sem hefur verið starfrækt í meira en 100 ár.

„Raunin er sú að þótt við eigum aðeins 62% hlut í Barclays Africa erum við ábyrg fyrir 100% af skuldum félagsins,” sagði Jes Staley, framkvæmdastjóri bankans. „Það var mjög erfið ákvörðun fyrir okkur að fara í þessa átt, en við hyggjumst selja hlut okkar í félaginu."