Gengi hlutabréfa í breska lággjaldaflugfélaginu British Airways (BA) hækkuðu um tæplega fjögur prósent þegar hlutabréfamarkaðir opnuðu í gærmorgun í London. Bréfin héldu áfram að hækka þegar leið á daginn og stuttu áður en markaðir lokuðu höfðu þau hækkað um 4,5%. Þessi hækkun er talin eiga sér rætur í þeirri staðreynd að flugfélagið greindi frá því síðastliðinn föstudag að bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hefði aukið eignarhlut sinn í fyrirtækinu upp í 5,14%, úr minna en þremur prósentum.

Þessi hlutafjáraukning Goldman Sachs í British Airways, sem er þriðja stærsta flugfélagið í Evrópu, gerði það að verkum að orðrómur fór af stað um að fjárfestingararmur bankans væri að íhuga skref í þá veru að yfirtaka félagið. Sérfræðingar um flugiðnaðinn hafa undanfarin misseri talið líklegt að umsvif einkafjárfestingarsjóða í evrópska flugiðnaðinum muni aukast.

Í frétt Dow Jones fréttastofunnar um málið í gær kemur aftur á móti fram að sumir sérfræðingar telji að þessi hækkun á bréfum í BA eigi sér eðlilegri skýringu: Bréfin hafi lækkað mikið það sem af er maímánuði og því hefði mátt búast við því að félagið myndi bráðlega rétta úr kútnum. Jafnframt er á það bent að framkvæmdastjóri BA, Willie Walsh, hafi keypt tíu þúsund hluti í félaginu í síðustu viku, sem hafi aukið bjartsýni manna á að gengi bréfanna myndi hækka.

Um vika er síðan að British Airways greindi frá því að það hyggðist taka þátt í fyrirhuguðu yfirtökutilboði í spænska flugfélagið Iberia með hópi fyrirtækja sem bandaríski einkafjárfestingarsjóðurinn TPG Capital fer fyrir. Það er talið að tilboðið verði í kringum 3,5 milljarða evra, en Goldman Sachs bankinn er ráðgjafi hópsins við að skoða allar mögulegar leiðir við að yfirtaka Iberia.