Bréf sænska fjármálafyrirtækisins Carnegie hækkuðu töluvert í morgun í kjölfar frétta í sænska viðskiptadagblaðinu Dagens Industri um að bankinn geti orðið yfirtökuskotmark. Bréfin hækkuðu um ríflega 6% í morgun sem er mesta hækkun þeirra í ríflega ár.

Í frétt Dagens Industri kemur fram að DnB NOR, stærsti banki Noregs, gæti verið áhugasamur um að eignast Carnegie sem sérhæft hefur sig í verðbréfamiðlun. Forráðamenn norska bankans neituðu að gefa nokkrar umsagnir þegar þeir voru spurðir um málið. Blaðið heldur því fram að íslenskir bankar gætu einnig verið áhugasamir.

Forráðamenn DnB NOR hafa gefið í skyn að félagið geti hugsað sér að fjárfesta í Svíþjóð í þeim tilgangi að efla stöðu sína á norrænum markaði. Einnig er best á fjárfestingar íslenskra banka á Norðurlöndum í þessu sambandi.

Bent er á að margir gætu haft áhuga á að fjárfesta í Carnegie vegna þess að félagið er til þess að gera lágt metið á markaði um þessar mundir. Bréf félagsins hafa fallið um 9% á árinu og um 12% síðan 24. maí en þá var greint frá því að komið hefði í ljós að ekki væri allt með feldu í bókhaldi félagsins vegna sviksamlegs athæfis nokkurra starfsmanna. Það gerði það að verkum að Carnegie varð að leggja 33 milljónir Bandaríkjadala til hliðar.