Gengi hlutabréfa Dagsbrúnar, móðurfélags Og Vodafone of 364-miðla, hefur hækkað um 2% frá opnun markaðs í dag.

Sérfræðingar telja að áætlanir félagsins um að fjárfesta í norræna fjölmiðlafyrirtækinu Orkla Media, sem meðal annars á og rekur danska dagblaðið Berlinske Tidende, hafi ýtt undir hækkunina.

Haft var eftir Þórdísi J. Sigurðardóttur, stjórnarformanni Dagsbrúnar, í fréttum Sjónvarpsins um helgina, að um gríðarlega fjárfestingu sé að ræða. Sagðist Þórdís ekki vita til þess að dagblöð séu borin í hús til fólks án endurgjalds annars staðar á Norðurlöndunum og því sé ætlunin að nota það viðskiptamódel sem Fréttablaðið byggir á til að láta til sín taka á dönskum blaðamarkaði.

Þess má geta að í nýlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sagði Þórdís að ekki væri ætlunin að kaupa Politiken en nú virðist komið að Berlingske Tidende og BT.
Orkla Media er metið á um 80-90 milljarða íslenskra króna.

Gengi bréfa Dagsbrúnar var 5,6 krónur á hlut um klukkan eitt í dag og talið er að Landsbanki Íslands hafi selt á því gengi. Flaggað var í Kauphöll Íslands vegna viðskipta með bréf Dagsbrúnar, en Landsbankinn hefur selt niður hlut sinn í 8,62% úr 11,04%.

Af eignarhlut Landsbankans eftir viðskiptin eru 313.786.182 krónur að núvirði vegna framvirkra samninga, eða 7,23% af heildarhlutafé Dagsbrúnar, segir í tilkynningu frá Kauphöllinni.