Gengi hlutabréfa Eimskips hefur fallið um tæp 4,8% í Kauphöllinni í dag í kjölfar uppgjörs. Fyrirtækið hagnaðist um tæpar 4,6 milljónir evra, jafnvirði 728 milljóna króna á fyrri hluta árs sem er talsverð lækkun á milli ára. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn næstum átta milljónum evra. Á öðrum ársfjórðungi einum nam hagnaðurinn rétt rúmum tveimur milljónum evra samanborið við 7,4 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi á síðasta ári.

Gengi hlutabréfa Eimskips stendur nú í 250 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan um miðjan júní.

Fram kemur í uppgjöri Eimskips að rekstrartekjur námu 213 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi samanborið við 203,1 milljón á sama tíma í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi námu tekjurnar 108,1 milljón evra samanborið við 106,8 milljónir í fyrra og var það 1,2% aukning á milli ára.

Þá nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) 17 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum ársins sem var tveimur milljónum evrum minna en fyrir ári. Á öðrum ársfjórðungi nam rekstrarhagnaðurinn svo rétt rúmum 9,8 millónum evra sem jafngildir tæplega 20% lækkun á milli ára.