Virði hlutabréfa í Eimskip hefur hækkað um ríflega 30 prósent frá útboðsgengi félagsins í lok október á síðasta ári. Þá ákvarðaðist gengi bréfanna 208 krónur á hlut. Á fyrsta viðskiptadegi þann 16. nóvember hækkuðu bréfin um rúmlega 8% og enduðu daginn í 225 krónum á hlut. Virði bréfanna hefur farið stöðugt hækkandi frá skráningu. Miklar hækkanir hafa raunar einkennt íslenska hlutabréfamarkaðinn, einkum í byrjun nýs árs, eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um.

Mikið kurr var innan lífeyrissjóðanna, stærstu fjárfesta landsins, þegar lokað útboð á bréfum í Eimskip stóð yfir í október. Til sölu var 20% hlutur í félaginu. Lífeyrissjóðirnir Gildi og LSR, tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, ákváðu að taka ekki þátt og sögðu ástæðuna vera óánægju um kauprétti stjórnenda Eimskips. Aðrir lífeyrissjóðir, þar á meðal Almenni lífeyrissjóðurinn, skiluðu inn tilboði með fyrirvara um að fallið yrði frá kaupréttum.

Gildi hefur ekki fjárfest í félaginu eftir að það fór á markað. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir að lífeyrissjóðurinn hafi keypt bréf í félaginu á síðustu misserum. Litið sé á félagið sem hvern annan fjárfestingarkost.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.