*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 21. desember 2020 16:38

Bréf Eimskips og Icelandair lækka mest

Hlutabréf Eimskips lækkuðu um 3,32% og bréf Icelandair um 3,14%. Úrvalsvísitalan lækkaði um eitt prósent.

Ritstjórn

Rautt var yfir Kauphöllinni í viðskiptum dagsins þar sem Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um eitt prósent og stendur nú í 2.410 stigum. Heildarvelta nam 2,1 milljarði króna í 365 viðskiptum. Bréf sautján félaga af þeim nítján sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar lækkuðu í verði. Þar af lækkuðu bréf sjö félaga um meira en 2%.

Mest lækkuðu hlutabréf Eimskips eða um 3,32% í 76 milljóna króna veltu. Bréf Eimskips hafa verið í miklum styrkingarfasa en þau standa í 247,5 krónum en stóðu í 132 krónum í upphafi októbermánaðar. 

Næst mest lækkuðu bréf Icelandair Group, um 3,14% í 194 milljóna króna veltu og standa bréfin í 1,54 krónum. Gengi bréfanna hefur sveiflast talsvert á undanförnum vikum sem og mánuðum. Í upphafi nóvembermánaðar stóðu þau í 0,9 krónum en fóru svo í 1,84 krónur þann 9. desember. Bréfin hafa lækkað um 16,3% síðan þá.

Bréf VÍS, Icelandic Seafood, TM, Regins og Festi lækkuðu öll um meira en tvö prósent í viðskiptum dagsins. 

Bréf Skeljungs hækkuðu um 1,17% og standa þau í 8,66 krónum hvert. Yfirtökutilboð Strengs í allt hlutafé Skeljungs er á genginu 8,315 krónur. Bréf Arion banka hækkuðu um 0,28% og standa í 90,5 krónum.

Velta á First North markaðnum nam sex milljónum króna og voru viðskiptin öll með bréf Kaldalóns sem lækkuðu um 2,5%. Bréf félagsins standa í 1,17 krónum hvert og hafa hækkað um átján prósent það sem af er ári.

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum, að breska pundinu og norsku krónunni undanskildum. Krónan styrktist um 1,16% gagnvart pundinu sem nú fæst á 171 krónu. Bandaríkjadollari styrktist um 0,27% gagnvart krónunni en hann fæst fyrir tæplega 129 krónur.

Stikkorð: Eimskip Icelandair Hlutabréf