Úrvalsvísistalan (OMXI10) hækkaði um ríflega prósentustig í viðskiptum dagsins og stendur nú í 2.128 stigum. Öll félög nema Sjóvá hækkuðu í viðskiptum dagsins sem námu tveimur milljörðum króna.

Hlutabréf fasteignafélaganna eru að stíga úr lægstu lægðum en mest hækkuðu bréf Regins í viðskiptum dagsins um 6,11% og stendur nú í 15,2 krónum. Næst mest hækkuðu hlutabréf Eikar um 5,4% og standa nú í 6,64 krónum. Þriðja mest hækkun var á bréfum Kviku banka um 3,28% sem standa nú í 10,4 krónum.

Mest velta var með bréf Arion banka um 370 milljónir króna sem hækkuðu um 2,55% og standa nú í 74,5 krónum. Bréf Reita hækkuðu um 1,42 og standa í 43 krónum hvert.

Marel ríflega 60% af úrvalsvísistölunni

Úrvalsvísitala OMXI10 hefur hækkað um 0,35% á þessu ári þrátt fyrir talsverða lækkun á hlutabréfum Arion banka, Reita og algjörs hruns á hlutabréfum Icelandair. Hækkun á hlutabréfum Marel er þar stór skýring en þau hafa hækkað um tæplega 17% það sem af er ári.

Það sem meira er vegur markaðsvirði Marel ríflega 60% af heildarmarkaðsvirði vísitölunnar. Markaðsvirði félagsins nemur 544 milljörðum króna eftir lokun markaða og markaðsvirði þeirra tíu félaga í vísitölunni nemur 889 milljörðum. Næst mest vegur Arion banki sem er ríflega 14% af vísitölunni en markaðsvirði félagsins nemur 129 milljörðum króna. Markaðsvirði Icelandair miðað við núverandi gengi er 6,4 milljarðar króna.

Mest lækkar krónan gagnvart Bandaríkjadal

Íslenska krónan lækkaði gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum í dag. Mest lækkaði hún gagnvart dollaranum, um 1,02% sem fæst nú á tæplega 140 krónur. Evran fæst á 165 krónur og breska pundið á tæplega 186 krónur.

Sjá einnig: Hægst hefur á inngripum Seðlabankans

Það sem af er ári hefur íslenska krónan veikst mest gagnvart þeirri sænsku eða um 23,3% og næst mest gagnvart pundinu eða um 21,2%.