Alls lækkuðu hlutabréf fjórtán félaga af þeim nítján sem skráð eru í kauphöll Nasdaq á Íslandi en bréf fimm félaga hækkuðu. Mest lækkuðu bréf VÍS um 2,7% í 228 milljóna króna viðskiptum en Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 0,16%. Vísitalan stendur í rúmlega 2.300 stigum. Heildarvelta á hlutabréfamarkaði nam 1,7 milljörðum króna í nær 250 viðskiptum.

Næst mest lækkuðu bréf Regins um 2,4% og þriðja mesta lækkunin var á bréfum Eimskips um 1,7%. Mest hækkun var á bréfum Arion banka um rúmlega prósentustig í 257 milljóna króna viðskiptum en bréf bankans standa í 87,1 krónu.

Hlutabréf Icelandair lækkuðu um 1,4% og standa þau í 1,4 krónum hvert. Veltan nam 183 milljónum króna en Icelandair birti í dag jólaáætlun sína. Félagið gerir ráð fyrir að fljúga til ellefu áfangastaða en er nú að fljúga til fjögurra.

Heildarvelta á skuldabréfamarkaði nam 8,8 milljörðum króna í alls 85 viðskiptum. Ávöxtunarkrafa á einum skuldabréfaflokki lækkaði en krafa á 21 flokki hækkaði. Mest hækkaði krafan á bréf Húsnæðis- og mannvirkjunarstofnun sem eru á gjalddaga árið 2034 eða um 35 punkta. Ávöxtunarkrafa á óverðtryggð ríkissbréf sem eru á gjalddaga árið 2028 hækkaði um 16 punkta og er nú 3,1%.