*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Erlent 24. nóvember 2020 12:37

Bréf flugfélaga erlendis hækka

Hlutabréf SAS hafa hækkað um fimmtung í dag og um 43% á síðustu fimm dögum. Bréf annarra flugfélaga hafa hækkað sömuleiðis.

Ritstjórn
Hlutabréf SAS hafa lækkað um 87% það sem af er ári þrátt fyrir tæplega fimmtungs hækkun í dag.
Haraldur Guðjónsson

Hlutabréf skandinavíska flugfélagsins SAS hafa hækkað um tæplega fimmtung það sem af er degi og um 43% á undanförnum fimm dögum. Bréf Lufthansa hafa hækkað um sjö prósent í dag, bréf American Airlines um fimm prósent fyrir opnun markaða vestanhafs og bréf United Airlines um fjögur prósent.

Þrátt fyrir hækkun á hlutabréfum SAS eru bréfin í sögulegri lægð. Hvert bréf kostar tæplega 1,5 danskar krónur en í upphafi árs stóðu bréfin í 10,6 dönskum krónum. Bréf Icelandair hafa sömuleiðis hækkað í dag eða um 1,43% þegar þetta er skrifað í 68 milljóna króna veltu. Bréfin standa í 1,42 krónum en voru í 0,95 krónum fyrir mánuði síðan. Í upphafi árs stóðu bréfin í 7,55 krónum.

Hlutabréfaverð flugfélaga nú um mundir er mjög tengt framþróun veirufaraldursins. Jákvæðar fregnir hafa borist á undanförnum dögum um háa virkni bóluefna, nú nýlegast frá AstraZeneca. Vonir standa til að hefja bólusetningu að einhverju leyti í næsta mánuði.