Hlutabréf tölvu- og raftækjaverslunarkeðjunnar Gamestop standa nú í 500 dölum á hlut á eftirmarkaði, eftir ævintýralegar hækkanir og gríðarlegt flökt síðustu daga og vikur.

Við lokun markaða í gær stóðu bréfin í 345 dölum, nánast því sama og þau opnuðu í um morguninn, þrátt fyrir talsverðar hreyfingar innan dags. Þau höfðu lokað í 145 á þriðjudaginn og því yfir tvöfaldast milli viðskiptadaga á eftirmarkaði.

Bréfin hafa fangað athygli fjármálaheimsins og fjölmiðla síðustu daga, eftir að hópur almennra dagkaupmanna á spjallborðinu r/Wallstreetbets á Reddit fóru að takast á við skortsala og vogunarsjóði, sem sögðu bréfin ofmetin.

Sjóðirnir Melvin Capital og Citron Capital neyddust að lokum til að loka skortstöðum sínum með gríðarlegu tapi, til að fyrirbyggja enn frekara tap ef bréfin héldu áfram að hækka. Ekki hefur verið gefið út hversu miklu þeir töpuðu, en Melvin hefur tapað 30% það sem af er ári, og fengu neyðarfjárfestingu upp á 2,8 milljarða dala nú á þriðjudag.

Bréfin hófu vikuna í 65 dölum og hafa því hátt í tífaldast síðan. Frá áramótum hafa þau 30-faldast úr 17,25, og síðasta sumar sveifluðust þau milli 4 og 5 dala, og hafa því ríflega 100-faldast síðan þá.

Gamestop rekur yfir 5 þúsund verslanir með raftæki, tölvubúnað og tölvuleiki, og hefur átt erfitt uppdráttar í heimsfaraldrinum. Á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs drógust tekjur saman um 31% milli ára. Citron Capital gaf það út þegar félagið greindi frá skortstöðu sinni í félaginu fyrr á þessu ári að það teldi útséð að félagið myndi ekki lifa tekjufall faraldursins af.