*

sunnudagur, 7. mars 2021
Erlent 25. janúar 2021 18:01

Bréf Gamestop fimmfaldast á 2 dögum

Hlutabréf tölvu- og raftækjaverslunarinnar Gamestop náðu hæst 145 dölum í dag, en þau stóðu í um 40 á fimmtudag.

Ritstjórn
epa

Hlutabréf tölvu- og raftækjaverslunarkeðjunnar Gamestop fóru í 145 dali á hlut stuttu eftir opnun markaða fyrr í dag, en hafa nú helmingast aftur og standa þegar þetta er skrifað í um 77 dölum. Bréfin stóðu í um 4 dölum á hlut síðasta sumar og höfðu því þegar mest lét hátt í 40-faldast.

Mikið hefur gengið á með bréf Gamestop frá því dagkaupmenn (e. day traders) – mikið til af spjallborðinu r/wallstreetbets á Reddit – fóru að sýna bréfunum áhuga síðasta haust.

Uppúr áramótum fóru þau á skömmum tíma úr 20 dölum í 40, en þá gaf þekkt skortsölufyrirtæki, Citron Research, út að það hygðist skortselja bréfin.

Þessu tóku dagkaupmennirnir illa, og keyrðu bréfin upp í allt að 76 dali nú á föstudag, en bréfin fóru inní helgina í 65 dölum. Mikil viðskipti voru hinsvegar á eftirmarkaði nú í morgun fyrir opnun markaða, og dagurinn hófst í tæpum 100 dölum, sem varð til þess að Kauphöll New York stöðvaði viðskipti með bréfin fjórum mínútum eftir opnun.

Sem fyrr segir fóru bréfin hæst í 145 dali, áður en þau helminguðust á innan við 2 tímum og fóru lægst í um 60 dali, en hafa hækkað síðan þá.

Stikkorð: Gamestop