*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 28. janúar 2021 19:47

Bréf Gamestop hrundu eftir kaupbann

Bréf verslunarkeðjunnar féllu um 3/4 í dag eftir að Robinhood og fleiri hlutabréfamiðlanir lokuðu á kaup þeirra.

Júlíus Þór Halldórsson
Gamestop rekur yfir 5 þúsund verslanir víðsvegar um heiminn.
epa

Hlutabréf verslunarkeðjunnar Gamestop hrundu í dag eftir að Robinhood og fleiri hlutabréfamiðlanir (e. brokerages) lokuðu fyrir kaup á bréfunum eftir ævintýralegar hækkanir og flökt síðustu daga.

Bréfin rufu 500 dala múrinn fyrr í dag í eftirmarkaðsviðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs, en hrundu um þrjá fjórðu hluta niður í 126 dali í kjölfar kaupbannsins. Eftir það tóku þau að hækka á ný og hafa verið milli 200 og 300 síðan, ef frá er talið 10 mínútna stökk í 490 dali nú fyrir skemmstu. Bréfin standa þegar þetta er skrifað í 230 dölum á hlut. Upp úr hádegi að staðartíma hafði kauphöll New York þurft að stöðva viðskipti með bréfin 17 sinnum vegna gríðarlegra verðsveiflna.

Auk bréfa Gamestop náði kaupbannið til nokkurra fleiri fyrirtækja, meðal þeirra AMC kvikmyndahúsakeðjunnar. Það sem bréfin eiga sammerkt og varð kveikjan að lokuninni er gríðarlegur áhugi almennra dagkaupmanna á r/Wallstreetbets spjallborðinu á Reddit og víðar, á bréfunum, og samhent uppkaup þeirra á þeim.

AOC og Cruz sameinast í andstöðu við kaupbannið
Ævintýraleg hækkun bréfa Gamestop hefur valdið talsverðu fjaðrafoki vestanhafs, enda engin fordæmi fyrir því að hlutabréfamiðlanir loki fyrir viðskipti, hvað þá aðeins fyrir kaup, á einstökum bréfum.

Demókrataþingmaðurinn Alexandria Ocasio-Cortez segir í tísti um málið að það sé algerlega óviðunandi að miðlanirnar loki fyrir kaup almennra fjárfesta á bréfunum, á meðan fagfjárfestar á borð við vogunarsjóði séu frjálsir til að kaupa og selja að vild. Hún kallaði ennfremur eftir rannsókn fjármálaþjónustunefndar þingsins, sem hún á sæti í, á málinu.

Undir orð Alexandriu, sem er betur þekkt sem AOC, tekur svo repúblíkanaþingmaðurinn og fyrrum forsetaframbjóðandinn Ted Cruz, en þingmennirnir tveir eru á öndverðum meiði um flestallt, og telst því til nokkurra tíðinda að þau tali einni röddu.

Yfir helmingur Robinhood-notenda hluthafi í Gamestop
Forsaga málsins er sú að notendur Wallstreetbets fóru að sýna fyrirtækinu og hlutabréfum þess áhuga á seinni hluta síðasta árs. Gamestop rekur yfir 5 þúsund verslanir með tölvuleiki, tölvubúnað og önnur raftæki en hefur átt erfitt uppdráttar vegna aukinnar netverslunar með tölvuleiki, sér í lagi eftir að heimsfaraldurinn skall á.

Í upphafi þessa árs höfðu bréfin allt að tífaldast í verði frá síðasta sumri, og bandarískir vogunarsjóðir töldu það vera orðið ofmetið, og gáfu út að þeir hygðust taka skortstöðu gegn félaginu. Fjárfestar á Wallstreetbets brugðust þá ókvæða við og hófu að kaupa bréfin í milljarðavís, og brutu með því meðal annars veltumet í kauphöllinni. Í áðurnefndu tísti AOC er vísað í annað tíst, þar sem fram kemur að yfir helmingur notenda Robinhood eigi nú bréf í Gamestop.

Skortstaða er í stuttu máli veðmál á að hlutabréfaverð lækki, og er framkvæmd þannig að fengin eru bréf að láni, þau seld á markaði, og eftir tiltekinn tíma þarf svo að skila þeim aftur, en þar sem skortsalinn hefur þegar selt þau þarf hann að kaupa þau aftur á markaði í síðasta lagi á skiladegi.

Ef verðið hefur lækkað er ódýrara fyrir hann að endurkaupa þau en hann fékk fyrir söluna upphaflega og hann græðir því mismuninn. Ef hinsvegar verðið hefur hækkað fer hann að tapa, og þar sem það eru engin takmörk fyrir því hversu mikið þau geta hækkað, eru engin takmörk fyrir mögulegu tapi.

Þegar bréf með stórar útistandandi skortstöður hækka mikið geta skortsalarnir farið að ókyrrast, og hugsa sem svo að best sé að kaupa bréfin strax jafnvel þótt ekki þurfi að skila þeim strax, til að tryggja sig gegn enn frekari hækkunum. Kaup skortsalanna á bréfunum auka hinsvegar eftirspurn eftir þeim og geta þannig búið til vítahring sem keyrir verðið upp mjög hratt, meðan allir skortsalarnir keppast í óðagoti við að kaupa bréf til að loka stöðum sínum.

Kostuðu vogunarsjóði milljarða dala
Tveir vogunarsjóðir, Melvin Capital og Citron Capital, eru sagðir hafa tapað milljörðum dala á skortstöðum sínum, þó þeir hafi ekki sjálfir gefið út tölur yfir tapið. Þeir hafa hinsvegar staðfest að þeir hafa þegar lokað stöðum sínum og þannig tryggt sig gegn frekara tapi, en jafnframt fest það tap sem þegar hafði orðið endanlega í sessi.

Á þriðjudag var sagt frá því að Melvin hefði fengið hátt í 3 milljarða dala neyðarfjárfestingu frá fjársterkum aðilum, og Reuters sagði frá því fyrr í dag að heildartap skortsala á bandarískum hlutabréfum á árinu nemi um 71 milljarði dala, yfir 9 þúsund milljörðum íslenskra króna, eða yfir þrefaldri vergri landsframleiðslu Íslands.

Fjöldi bréfa til sölu á markaðnum er nú sagður vera orðinn verulega lágur, og eru miklar verðsveiflur – sér í lagi 200 dala stökk bréfanna í 10 mínútur áður en þau hrundu niður á 200-300 dala bilið aftur – talin til marks um það.

Stikkorð: Reddit Gamestop wallstreetbets