Hlutabréf tölvuverslunarkeðjunnar Gamestop hafa fallið um tvo þriðju hluta það sem af er vikunni og standa nú í 120 dölum á hlut. Við opnun markaða í dag hófust viðskipti í 140 dölum, en við lokun í gær stóðu bréfin í 227.

Eins og flestum er kunnugt hefur mikið staðið á með hlutabréf félagsins síðustu daga og vikur. Eftir ævintýralega hækkun sem náði hápunkti í yfir 500 dölum á hlut síðastliðinn fimmtudag – 30-földun frá áramótum og ríflega 100-földun frá síðasta sumri – hafa bréfin nú fallið verulega.

Verðið fór lægst í rúma 80 dali á hlut laust fyrir klukkan 11 að staðartíma eða 4 að íslenskum tíma, sem gerir um 84% verðfall á aðeins þremur viðskiptadögum.

Í ritstjórnargrein Financial Times nú fyrir skemmstu segir berum orðum að „tónlistin“ í kring um félagið sé nú að þagna, myndmál sem vísar í stólaleikinn svokallaða, þar sem þátttakendur keppast um að finna sér sæti eftir að tónlist sem spiluð hafði verið er skyndilega stöðvuð.