Gengi bréfa internetfyrirtækisins Groupon hækkuðu um 55% eftir að opnað var fyrir viðskipti með hlutabréfin í dag. Groupon seldi alls 35 milljón hluti á genginu 20 dalir á hlut og aflaði þar með 700 milljóna dala í nýju hlutafé. Fór gengi bréfanna upp í ríflega þrjátíu dali á hlut skömmu eftir opnun bandarískra hlutabréfamarkaða í dag. Bandarískt internetfyrirtæki hefur ekki aflað jafnhárrar fjárhæðar í hlutafjárútboði síðan Google fékk 1,9 milljarða dala í sínu útboði árið 2004.

Groupon er hópkaupsfyrirtæki, sem leiðir saman fyrirtæki og neytendur. Fyrirtæki bjóða þá þeim afslátt sem eru meðlimir Groupon, en Groupon fær sjálft hluta af sölutekjum fyrirtækisins.

Í frétt Bloomberg er haft eftir Sam Hamdeh, sérfræðingi hjá greiningarfyrirtækinu PrivCo, að hlutafjárútboðið sé jöfnum höndum markaðssetningaratburður og fjármögnunarleið fyrir Groupon. Umfang útboðsins og útboðsverðið hafi verið hannað til þess að hlutabréfaverðið myndi hækka duglega á fyrsta degi.