Gengi bréfa bandaríska hópkaupafyrirtækisins Groupon hefur lækkað um ein 26,1% það sem af er degi og er ástæðan vonbrigði fjárfesta með afkomu fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi. Gengi bréfanna er nú um 5,8 dalir á hlut, en þegar fyrirtækið var skráð á markað í nóvember í fyrra var gengið um 26,1 dalur á hlut.

Þrátt fyrir að tekjur fyrirtækisins hafi aukist um 45% milli ára og námu 568 milljónum dala á öðrum fjórðungi var það töluvert undir væntingum markaðsaðila. Í frétt Bloomberg segir að slök frammistaða fyrirtækisins á öðrum mörkuðum en Bandaríkjunum hafi valdið vonbrigðum. Erlendar tekjur jukust um 31% milli áraog námu alls 308 milljónum dala. Fyrirtækið segir að ef horft sé framhjá gengissveiflum hefðu erlendar tekjur aukist um 45%.

Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 28,4 milljónum dala, samanborið við 107 milljóna króna tapi á sama tíma í fyrra. Markaðsverðmæti Groupon miðað við gengi bréfa félagsins í dag er um 4,9 milljarðar dala, sem er vel undir þeim sex milljörðum sem Google var tilbúið að greiða fyrir fyrirtækið áður en ákveðið var að fara í hlutabréfaútboð.