Á hluthafafundi Búvalla slhf., í dag var samþykkt að lækka hlutafé í félaginu og ráðstafa hlutafé í Högum til Stefnis Íslenska athafnasjóðsins I. Er það gert í réttu hlutfalli við eignarhlutdeild sjóðsins í Búvöllum. Alls eru hlutirnir 99.494.157 og viðskiptin gerð á genginu 16,95 krónur á hlut, samkvæmt flöggun til Kauphallar Íslands í dag. Markaðsvirði hlutarins er því um 1,67 milljarðar króna.

Fram kemur að viðskiptin leiði til þess að Íslenski athafnasjóðurinn I eignast hlutafé í Högum beint, í stað þess að eiga það óbeint í gegnum Búvelli. Viðskiptin séu í samræmi við markmið Búvalla um að eignarhald Haga verði sem dreifðast.

Búvellir slfh. á eftir viðskiptin 12,73% hlut í Högum. Íslenski athafnasjóðurinn, sem er í rekstri Stefnis, á 16,83% hlut.