Bréf í Lehman Brothers féllu um 4,3 prósent eftir að Financial Times birti frétt um að bankanum hefði mistekist að selja eigin bréf til Suður Kóreskra og Kínverskra fjárfesta.

Fleiri fjármálafyrirtæki féllu í dag og er það m.a. rekið til hækkandi olíverðs og hugsanlegra afskrifta.

Greinandi Citigroup hefur endurmetið Lehman Brothers vegna þessa. Er nú áætlað að Lehman Brothers muni tapa um 3,25 Bandaríkjadali á hvern hlut á þriðja ársfjórðungi. Áður var búist við að tapið næmi 41 sentum á hlut. Búist er við að eignir tengdar afskriftum verði metnar á um 2,9 milljarða Bandaríkjadala.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu.

Citigroup hefur einnig endurmetið Goldman Sachs Group, Merill Lynch og Morgan Stanley. Gert verður ráð fyrir minni hagnaði þessara félaga. Það er m.a. rakið til illseljanlegra eigna og erfiðra markaðsaðstæðna.

Lehman Brothers er fjórði stærsti fjárfestingabanki Bandaríkjanna. Bankinn hefur tapað u.þ.b. sjö milljörðum Bandaríkjadala, m.a. á sfskriftum af lánum, síðan alþjóðlega fjármálakreppan hófst.

Talið er að bankinn reyni að selja hluta starfsemi sinnar til þess að rétta stöðu sína. Þess vegna höfðu fréttir um að slíkt hafi ekki gengið áhrif til lækkunar.