Tæp fjórðungslækkun hefur orðið á gengi hlutabréfa í Magma Energy eftir að tilkynnt var um kaup félagsins á 52% hlut í HS Orku í maí fyrir 16 milljarða króna. Frá áramótum nemur gengislækkunin 38% en Magma er skráð á hlutabréfamarkaðinn í Toronto.

Magma hefur nýlokið við 4,8 milljarða króna hlutafjárútboð (40 milljónir Kanadadala) vegna kaupanna og má ætla að þessi fjármögnun hafi haft áhrif til lækkunar. Útboðsgengið var 1,12 Kanadadalur á hlut sem var afsláttur frá markaðsgengi á þeim tíma er tilkynnt var um útboðið. Einnig hefur gengi bréfa Magma fylgt markaðnum að öðru leyti en sambærileg félög sem starfa við orku- og hráefnisöflun hafa verið að lækka í verði.

Skráning á fleiri staði

Forsvarsmenn Magma hafa sýnt því áhuga að skrásetja félagið jafnt á markað í New York og útiloka ekki skráningu Magma eða jafnvel HS Orku í Kauphöll Íslands. Það gæti laðað innlenda og/eða erlenda fjárfesta að HS Orku en forsvarsmenn Magna hafa hug á því að fá fleiri fjárfesta til liðs við íslenska orkufyrirtækið.