Gengi bréfa Icelandair féll um 40% í fyrstu viðskiptum í dag en lækkun dagsins er sem stendur í 26%.. Viðskiptin það sem af er degi hafa þó verið óveruleg. Gegni bréfa félagsins féll úr 2,37 í 1,4 í fyrstu viðskiptum en stendur nú í 1,75 krónum á hluti.

Haldist það gengi til loka dags verður það lægsta dagslokagengi Icelandair frá skráningu á markað. Eftir lokun markaða á fimmtudaginn tilkynnti Icelandair um að það stefndi að hlutafjárútboði í júní. Leggja á tillögu um hlutafjárútboð fyrir hluthafafund síðar í maí. Þá óskar stjórnin einnig eftir því að fá að gefa út allt að 30 milljarða nýrra hluta í Icelandair og að núverandi hluthafar falli frá forgangsrétti  sínum á hlutabréf í félaginu. Verði sú heimild nýtt að fullu mun hlutur núverandi hluthafa félagsins þynnast út í 15,3%.

Icelandair stefnir að því að sækja sér um 200 milljónir dollara, um 29 milljarða króna með hlutafjárútboði. Þá er einnig til skoðunar hvort hægt sé að fá lánardrottna að fallast á að breyta skuldum Icelandair í hlutafé í félaginu.

Ríkisstjórnin samþykkti fyrir helgi að það væri tilbúið til viðræðna við Icelandair um lánalínur eða ríkisábyrgð gegn vissum skilyrðum, til að mynda að hlutafjáraukning gengi eftir.

Þá hefur Icelandair átt í viðræðum við helstu starfsstéttir félagsins um nýja kjarasamninga. Yfir 2000 manns var sagt upp hjá félaginu í síðustu viku.

Félagið gaf út á föstudaginn að það hefði tapað 24 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, fyrst og fremst á virðisrýrnun viðskiptavildar og eldsneytisvörnum.