Gengi hlutabréfa Icelandair Group hafa hækkað um 3,24% í Kauphöllinni í dag og fóru þau yfir 7 krónur á hlut. Velta með hlutabréfin nemur rétt rúmum 150 milljónum króna sem er um 93% af 161,8 milljóna króna hlutabréfaviðskiptum dagsins.

Gengi hlutabréfanna hefur ekki verið hærra síðan Icelandair Group fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu sem lauk haustið 2010 m.a. með sölu eigna utan kjarnastarfsemi. Einn af þremur þáttum endurskipulagningarinnar var að selja hluti í Icelandair Group fyrir á genginu 2,5 krónur á hlut. Gengið hefur samkvæmt þessu hækkað um 180% á þessum tæpu tveimur árum sem liðin eru.

Í Kauphallarkerfinu nú er sölutilboð upp á 7,02 krónur á hlut en kauptilboð upp á 6,97 krónur á hlut.

Félagið skilaði uppgjöri fyrir annan ársfjórðung á föstudag. Hagnað nam 14,3 milljjónum Bandaríkjadala (rúml. 1,7 ma.kr.) eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið við 3,3 milljóna dala hagnað (tæpl. 400 m.kr.) á sama tíma í fyrra. Markaðs- og greiningarfyrirtækið IFS Greining sagði í morgun uppgjörið gott og birti nýtt verðmat fyrir félagið.

Helsti hluthafi Icelandair Group er Framtakssjóður Íslands með 19% hlut. Á lista yfir 20 helstu hluthafa félagsins eru lífeyrissjóðir og sjóðir í eigu banka og fjármálafyrirtækja.