Áfram var talsvert líf á hlutabréfamarkaði eftir mjög svo viðburðaríka viku. Í viðskiptum dagsins hækkuðu alls hlutabréf sex félaga, verð fjögurra félaga hélst óbreytt og bréf níu félaga lækkuðu, þar af fimm um eitt prósentustig eða meira. Heildarvelta nam 2,5 milljörðum króna í alls 226 viðskiptum.

Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 0,86% í viðskiptum dagsins sem stendur nú í rúmlega 2.308 stigum. Í upphafi viku var vísitalan í 2.254 stigum og hækkaði því um rúmlega tvö prósent. Í upphafi árs stóð vísitalan í 2.121 stigi og hefur hækkað um tæplega níu prósentustig það sem af er ári.

Mest velta sem og mest hækkun var á bréfum Icelandair. Hlutabréf flugfélagsins hækkuðu um 3,17% í nær 480 milljóna króna veltu og standa þau í 1,3 krónum, 30% hærra en útboðsgengi félagsins í nýloknum hlutafjárútboði.

Hlutabréf Icelandair eru sömuleiðis hástökkvari kauphallar Nasdaq á Íslandi en þau stóðu í 0,9 krónum við lokun markaða í síðustu viku og hafa því hækkað um 44% í vikunni. Ástæðuna má rekja til jákvæðra fregna um mögulegt bóluefni.

Næst mest hækkuðu hlutabréf Eimskips í dag eða um 2,15%. Bréf félagsins standa í 190 krónum hvert og hafa hækkað um tæplega 17% á síðasta mánuði.

Næst mest velta var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu mest í viðskiptum dagsins eða um 1,41% í 373 milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa í tæplega 84 krónum hvert og hafa hækkað um 8,4% á undanförnum mánuði.

Næst mest lækkuðu bréf Reita um 1,13% eftir mikla hækkun í liðinni viku. Bréf félagsins standa í nær 57 krónum hvert en í upphafi viku voru þau í um 48 krónum og hafa því hækkað um tæplega átján prósent. Í síðasta mánuði lauk Reitir fimm milljarða hlutafjárútboði en útboðsgengið var 43 krónur og því núverandi markaðsverð nær þriðjungi hærra.

Hlutabréf Kviku banka lækkuðu um þriðjung af prósentu í 281 milljón króna veltu. Standa hlutabréf bankans í tæplega 13,5 krónum og hafa þau hækkað um rúmlega fjórðung á þessu ári. Kvika birti afkomutilkynningu fyrr í dag . Þar kom fram að arðsemi eiginfjár á fyrstu níu mánuðum ársins nam 11,3% en 10,3% á þriðja ársfjórðungi 2020. Enn fremur að samrunaviðræður við TM gangi vel og stefnt er að niðurstöðu á næstu vikum.

Gengi krónunnar styrkist eilítið gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum. Mest styrktist hún um 0,93% gagnvart þeirri sænsku en um 0,22% gagnvart Bandaríkjadollara sem nú fæst á 137 krónur. Krónan styrktist um 0,12% gagnvart evru sem fæst á 162 krónur.