Hlutabréf Icelandair Group héldu áfram að hækka í upphafi vikunnar eða um sjö prósent í 640 milljóna króna veltu eftir að hafa hækkað um þrettán prósent í síðustu viku. Bréfin standa í 1,69 krónum en stóðu í 0,9 krónum fyrir rúmlega mánuði síðan, þann 6. nóvember, og hafa hækkað um 88% síðan þá.

Alls hækkuðu hlutabréf sjö félaga sem skráð eru á aðalmarkað Kauphallar Nasdaq á Íslandi. Bréf tíu félaga lækkuðu. Heildarvelta nam 2,3 milljörðum króna í tæplega 500 viðskiptum. Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 0,83% og stendur í tæplega 2.400 stigum.

Hlutabréf Marel hækkuðu næst mest eða um 1,9% í 287 milljóna króna veltu. Bréf Marel standa í 726 krónum en hafa hæst farið í 755 krónur við lokun markaða í október síðastliðnum. Þriðja mesta hækkunin var á bréfum Eimskips, um 1,8%. Standa bréf Eimskips í 224 krónum og hafa hækkað um 57% á síðustu þremur mánuðum. Yfirtökutilboð Samherja í Eimskip er 175 krónur fyrir hvert bréf.

Mest lækkuðu bréf Skeljungs eða um 1,7% í 84 milljóna króna veltu. Bréf standa í 8,6 krónum hvert en yfirtökutilboð Strengs nemur 8,315 krónum. Árni Pétur Jónsson forstjóri Skeljungs seldi í dag hlutabréf í Skeljungi fyrir tuttugu milljónir króna á genginu 7,78 krónur.

Krónan veiktist gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum að breska pundinu undanskildu. Krónan styrktist um 0,6% gagnvart pundinu sem nú fæst á 168 krónur. Í upphafi árs fékkst breska pundið á 161 krónu.

Fregnir bárust frá því í dag að Bretar hafa ekki hvorki í hyggju að lengja aðlögunartímabilið eftir útgöngu úr Evrópusambandinu né að halda áfram viðræðum um viðskiptasamning. Aðlögunartímabilið rennur út um áramót.