Hlutabréf flugfélagsins Icelandair Group hafa lækkað um tæplega tólf prósent í viðskiptum dagsins þegar þetta er skrifað í um 400 milljóna króna veltu. Bréfin standa í 1,41 krónum hvert en fóru hæst í rúmlega 1,8 krónu fyrr í þessum mánuði.

Fyrr í dag bárust þær fregnir að Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, gerir ekki ráð fyrir að Íslendingar nái góðu hjarðónæmi fyrr en á seinni hluta næsta árs , þrátt fyrir að bólusetningar hefjist strax eftir áramót.

Í hlutafjárútboði Icelandair sem fór fram í september voru hlutir í félaginu seldir á eina krónu hver ásamt því að áskriftarréttindi fylgdu. Því hafa bréfin hækkað talsvert frá þeim tíma en hafa lækkað um ríflega fimmtung frá 9. desember síðastliðnum.