Hlutabréf hérlendis halda áfram að hækka en Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 1,13% í viðskiptum dagsins. Vísitalan hefur aldrei verið hærri og stendur í um 2.450 stigum. Heildarvelta nam 4,6 milljörðum króna í 736 viðskiptum. Viðskiptin voru 788 í gær sem var flest viðskipti á einum degi í rúmlega tólf ár.

Eins og svo oft á undanförnum dögum hækkuðu hlutabréf Icelandair mest. Bréf flugfélagsins hækkuðu um 7,6% í ríflega 700 milljóna króna veltu og standa þau í 1,84 krónum. Lægst hafa bréf Icelandair farið í 0,87 krónur, í október á þessu ári. Gengi bréfanna tók ekki að rísa fyrr en í nóvember en þau stóðu í 0,9 krónum þann 6. nóvember og hafa því hækkað um 104% síðan þá.

Markaðsvirði Icelandair er 52 milljarðar króna. Til samanburðar fór markaðsverð Icelandair – áður en að heimsfaraldurinn skall á – hæst á þessu ári í um 48 milljarða króna í febrúar.

Á eftir Icelandair hækkuðu bréf Origo mest, um 1,78% í litlum 14 milljóna viðskiptum, og þar næst Bréf Arion banka með 1,54% hækkun, sem rétt sló Eimskipum út með 1,53% hækkun. Velta í Arion var þó öllu meiri, 623 milljónir samanborið við 25 milljóna króna veltu með bréf Eimskipa. Yfirtökutilboði Samherja í allt hlutafé Eimskips lauk í dag en nær enginn tók tilboðinu sem var á genginu 175 krónur.

Aðeins þrjú félög lækkuðu, Eik um 1,34% í 54 milljóna viðskiptum, Reitir um 0,91% í 255 milljónum og Brim um 0,21% í 24 milljóna veltu. Bréf Festar stóðu í stað þrátt fyrir 212 milljóna veltu, en önnur hækkuðu.

Eins og svo oft áður var Marel veltukonungur dagsins með 812 milljón króna veltu sem skilaði 1,35% hækkun, þar næst kom Síminn með 792 milljóna veltu og 1,09% hækkun, og Icelandair vermdi þriðja sæti veltulistans.