Hlutabréf Icelandair lækkuðu um tæplega sjö prósent í ríflega fimm hundruð milljóna króna veltu. Bréf flugfélagsins standa í 1,49 krónum en náðu hápunkti síðan félagið lauk við hlutafjárútboð í september í 1,84 krónum.

Það kom til fregna í dag að Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, gerir ekki ráð fyrir að Íslendingar nái góðu hjarðónæmi fyrr en á seinni hluta næsta árs , þó svo að bólusetningar hefjist strax eftir áramót. Þrátt fyrir tíðindin hækkuðu hlutabréf átta félaga á aðalmarkaði Kauphallar Íslands. Mest hækkuðu bréf Regins um rúmlega tvö prósent.

Heildarvelta nam 4,2 milljörðum króna í 536 viðskiptum. Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um tæplega prósentu næst mest lækkun var á bréfum Marel um 1,3%. Bréf Marel standa í 748 krónum hvert en náðu sögulegu hámarki í vikunni þegar þau stóðu í 771 krónu.

Hlutabréf Eimskips hækkuðu um 0,42% í viðskiptum dagsins í 66 milljóna króna veltu. Eaton Vance seldi í gær hlutabréf í Eimskipi fyrir 537 milljónir króna og á eftir viðskiptin 4,43% hlut í félaginu.

Heildarvelta með skuldabréf nam 5,9 milljörðum króna í 63 viðskiptum. Ávöxtunarkrafa 22 skuldabréfaflokka lækkaði en krafa fjögurra flokka hækkaði. Krafa verðtryggðra skuldabréfa Reykjavíkurborgar sem eru á gjalddaga árið 2032 lækkaði um 19 punkta og nemur 1,25%.