Kauphöllin hefur sett skuldabréf ÍL-sjóðs, gamla Íbúðalánasjóðs, á athugunarlista í kjölfar fundar og kynningar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í gær. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, staðfestir þetta við mbl.is og segir ákvörðunina hafa verið tekna vegna óvissu um „útgefandann og verðmyndun bréfanna“.

Engin viðskipti hafa verið með skuldabréf ÍL-sjóðs, svokölluð HFF bréf, frá opnun Kauphallarinnar í dag.

Í kynningu fjármálaráðuneytisins eru settir fram þrír valkostir sem ríkissjóður er sagður standa frammi fyrir við úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Þeirra á meðal er að knúin verði fram gjaldþrotaskipti með lagasetningu.

Í skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs sem var birt í gær kemur fram að til að reka ÍL-sjóð út líftíma skulda þyrfti ríkissjóður að leggja honum til um 450 milljarða króna eða um 200 milljarða að núvirði. Ef sjóðnum væri hins vegar slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða og þar með kostnaður ríkissjóðs nema 47 milljörðum.

Lífeyrissjóðir skoða stöðu sína

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að lífeyrissjóðirnir, sem eru stærstu eigendur bréfanna, kanni nú stöðu sína eftir fund Bjarna í gær. Þeir hafi staðið í þeirri trú að ábyrgð ríkissjóðs næði til eftirstöðva framtíðarskuldbindinga.

Í útboðslýsingu HFF skuldabréfanna kemur fram að þau eru með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs. Kveðið er á um að ábyrgðin sé óafturkallanleg og taki til allra núverandi og framtíðarskuldbindingar íbúðabréfa, þeirra á meðal skyldu til að endurgreiða höfuðstól og vexti samkvæmt skilmálum.

Skýrt er kveðið á í lögum um lífeyrissjóði að þeir skuli leitast eftir hámarksávöxtun fyrir sjóðfélaga. Samkvæmt túlkun Fjármálaeftirlitsins og lögfræðiáliti er þeim því óheimilt að gefa eftir innheimtanlegar kröfur. Í ljósi þess verði þeir því knúnir til að leita réttar síns fari svo að ríkisstjórninni slíti ÍL-sjóði með lagasetningu.

„Við höfum látið vinna mjög ítarlegt lögfræðiálit um ríkisábyrgðina sem í gildi er og við teljum að þegar skilmálar hennar eru skoðaðir þá sé ótvírætt ekki um sjálfskuldarábyrgð að ræða. Hún er með öðrum orðum einföld,“ sagði Bjarni í viðtali við Morgunblaðið í morgun. Slík ábyrgð virkist þegar aðalskuldari geti ekki greitt af skuldbindingum sínum og eigi ekki eignir upp í þær.

„Opinberir aðilar sem starfa með ríkisábyrgð verða ekki settir í þrot á grundvelli almennra ákvæða gjaldþrotalaga og engin sérákvæði eru í gildi um ÍL-sjóð sem gera það mögulegt. Hins vegar mætti í ljósi þess að ÍL-sjóður á augljóslega ekki fyrir framtíðarskuldbindingum sínum ákveða með lögum að setja sjóðinn í slitameðferð, gjaldfella kröfurnar og kalla þannig fram ríkisábyrgð vegna stöðunnar eins og hún stendur í dag.“