*

fimmtudagur, 1. október 2020
Erlent 16. september 2020 12:22

Bréf Kodak aftur á flug

Kodak er ekki talið hafa brotið lög í kjölfar láns frá bandaríska ríkinu, bréf félagsins hafa hækkað um tæplega 60% í kjölfarið.

Ritstjórn
epa

Ekki er talið að Kodak, fyrrum leiðandi í filmubransanum, hafi brotið nein lög þegar félagið fékk himinhátt lán frá Bandaríska ríkinu en athugasemdir hafa verið gerðar við eftirlitskerfi félagsins. Þetta kemur fram í skýrslu sem stjórn félagsins lét vinna.

Í sumar tryggði fyrirtækið sér lán frá ríkinu sem nam 765 milljónum dollara og hækkaði markaðsvirði félagsins í kjölfarið úr 92 milljónum í 1,5 milljarða dollara eða um ríflega fimmtánfalt. Umfjöllun á vef WSJ.

Sjá einnig: Endurkoma hjá Kodak?

Hæst fóru hlutabréf félagsins í 33,2 dollara hvert en voru komin í ríflega 6,2 dollara við lokun markaða í gær. Í kjölfar þess að niðurstaða hafi komið úr skýrslunni og að félagið er ekki talið brotlegt hafa hlutabréf félagsins hækkað um tæplega 60% fyrir opnun markaða og standa í um 9,8 dollurum þegar þetta er skrifað.

Meðal ástæðna fyrir rannsókninni er að áður en tilkynnt var um téða lánveitingu hækkuðu hlutabréf félagsins, sem kann að bera merki um innherjaviðskipti. Kemur fram í skýrslunni að starfsmaður félagsins hafi veitt fjölmiðlum upplýsingar án þess að taka fram að þær skyldu vera trúnaður fram til ákveðins tíma (e. embargoed) og því hafi félagið ekki gert neitt saknæmt. 

Stjórnendur félagsins höfðu að auki fengið úthlutaða kauprétti og var rannsakað hvort tímasetning á þeim úthlutunum hafi verið athugaverð, svo reyndist ekki. Þar kemur fram að úthlutun kaupréttanna hafi verið í vinnslu langt áður en félagið vissi af lánveitingunni og að þeir höfðu haft réttmætar viðskiptalegar forsendur.

Að auki var gjöf eins stjórnarmanns til góðgerðamála rannsökuð. Ekki er talið að neitt athæfi hafi verið saknæmt í þeim málum þrátt fyrir að athugasemdir um stjórnarhætti félagsins hafi verið gerðar.

Stikkorð: Kodak kaupréttur