Hlutabréf Kviku banka hækkuðu mest í viðskiptum dagsins í mestri veltu. Bréf félagsins hækkuðu um 6,73% í 1,3 milljarða króna velta í og standa þau nú í 11,1 krónu hvert. Hafa þau því hækkað um fimm prósent á þessu ári og tæplega 60% frá því að bréf félagsins fóru lægst á þessu ári í marsmánuði. Viðskipti með bréf félagsins voru 61.

Sjá einnig: Kvika og TM formfesta viðræður

Næst mest hækkuðu hlutabréf TM um 4,61% í 330 milljóna króna veltu í 19 viðskiptum. Standa bréf félagsins nú í 36,3 krónum og hafa því hækkað um tvö prósent á þessu ári en um 51% frá því að þau fóru lægst á þessu ári sem var í marsmánuði.

Áðurnefnd félög tilkynntu í gærkvöldi að viðræður um sameiningu félaganna séu hafnar. Meðal forsenda fyrir sameiningunni eru að TM verði dótturfélag Kviku banka og að hluthafar TM eignist 55% hlut í sameinuðu félagi.

Hlutabréf Regins hækkuðu um 4,23% og standa nú í 16 krónum hvert. Félagið hefur lokið hlutafjárútboði á 40 milljón nýjum hlutum þar sem útboðsgengið var 15 krónur. Ríflega fjórföld eftirspurn var af nýju hlutunum.

Sjá einnig: Útboð Reitis samþykkt og Regins lokið

Heildarvelta dagsins nam 3,2 milljörðum króna í alls 260 viðskiptum. Alls hækkuðu hlutabréf fjórtán félaga en bréf þriggja lækkuðu. Úrvalsvísitala OMXI10 lækkaði um 0,11% og stendur nú í 2.089 stigum.

Mest lækkuðu hlutabréf Icelandair um 14,41% í 26 milljóna króna viðskiptum. Nú kostar hvert bréf 0,95 krónur en útboðsgengi bréfanna í nýliðnu hlutfjárútboði var ein króna.

Hlutabréf Eikar hækkuðu um 2,7% og standa í 7,23 krónum. Hlutabréf Arion banka hækkuðu um 2,16% og standa þau í 75,7 krónum. Bréf Haga hækkuðu um 0,8% og standa í 50,1 krónu.