Mest lækkuðu bréf Kviku eða um 6,25% í 162 milljón króna viðskiptum. Bréf félagsins standa nú í 9 krónum hvert. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tapaði fasteignafélagið Upphaf 1,1 milljarði króna en félagið er stærsta eign fagfjárfestingasjóðsins GAMMA:Novus. Í þokkabót liggur grunur fyrir því að greiðslur sem runnu frá Upphafi til félaga sem komu að framkvæmdarverkefnum sem Upphaf hefur unnið að hafi ekki verið með eðlilegum hætti.

Næst mest lækkun var á bréfum Vís eða um 3,98% og standa bréfin nú í 10,25 krónum hvert. Þriðja mesta lækkun var á Icelandair sem lækkaði um 2,46% í viðskiptum upp á 31 milljón króna. Bréfin standa nú í 6,34 krónum og hafa þau því lækkað um 32,15% á þessu ári.

Ekkert félag hækkaði í viðskiptum dagsins en virði Heimavalla, Sýn og Eimskip hélst í stað í litlum sem engum viðskiptum.